Flýtilyklar
Félagsstarfið
Afþreying hér á Akureyri fyrir alla aldurshópa er með því sem best gerist á landinu. Fyrirtæki smá og stór, frjáls félagasamtök og ýmsir aðilar ásamt Akureyrarbæ veita bæjarbúum tækifæri til þess að njóta fjölbreyttrar afþreyingar þar sem flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Félag eldri borgara og Akureyrarbær sinna tómstundastarfi og fjölbreyttri afþreyingu fyrir fólk frá 60 ára aldri með markvissum hætti.
Akureyrarbær rekur þjónustu- og félagsmiðstöð fyrir fólk frá 60 ára aldri í Víðilundi 22 og í Bugðusíðu 1. Félagið hefur húsnæði í Bugðusíðu 1 fyrir skrifstofu sína og aðra starfsemi sér að kostnaðarlausu. Í félagsmiðstöðinni þar fer fram fjölbreytt félags- og tómstundastarf á vegum félagsins. Starfsemi beggja félagsmiðstöðvanna heyrir undir fræðslu- og lýðheilsusvið bæjarins. Starfsemin er í sífelldri þróun og hefur það markmið að skapa fjölbreytni og mæta þörfum þeirra sem þangað sækja.
Félagsmiðstöðvarnar eru opnar alla virka daga frá kl. 09:00 til 15.45, en kl. 09:00-13:00 yfir sumarið. Aðgangur er ókeypis.
Í félagsmiðstöðvunum er boðið uppá námskeið af ýmsu tagi og fjölbreytt handverk, hreyfingu og ýmsa aðra afþreyingu og uppákomur.
Fréttabréf um starfsemi félagsmiðstöðvanna og stundatöflur eru á heimasíðunni (sjá hnappa).
Undir liðnum UM FÉLAGIÐ er sagt frá stofnun Félags eldri borgara og fyrstu árum starfseminnar. Meginmarkmið með starfi félagsins er að bjóða félagsmönnum upp á ýmsa tómstundaiðju og afþreyingu. Má þar nefna fræðslufundi, námskeið, ýmsar kynningar, skemmtikvöld (kráarkvöld), bingó, félagsvist, bridds og margt fleira. Yfir sumarið hefur félagið staðið fyrir léttum gönguferðum í Kjarnaskógi og einnig lengri gönguferðum, 4-10 km. Þá býðst félagsmönnum kostur á að fara í styttri og lengri hópferðir innanlands og utan. Undanfarin ár hafa félagsmenn farið erlendis á vegum ferðanefndar í beinu flugi frá Akureyri. Jólahlaðborð, árshátíð og vorhátíð eru fastir liðir. Félagið hefur í samstarfi við aðra aðila staðið fyrir ráðstefnuhaldi fyrir eldri borgara á Akureyri. Kór eldri borgara Í fínu formi, heldur tónleika innan héraðs og fer í tónleikaferðir bæði innan lands og utan.
Hlutverk félagsins er einnig að kynna réttindi og skyldur eldri borgara í samfélaginu og vera þátttakandi í úrbótum í húsnæðismálum, alvinnumálum og efnahagsmálum eldri borgara.
Félagið á 3 fulltrúa í Öldungaráði Akureyrarbæjar, en það er samráðsvettvangur bæjarbúa 60 ára og eldri, félagasamtaka þeirra, atvinnulífs og bæjarins. Það er virkur þátttakandi í allri stefnumótun málaflokksins eins og segir í samþykkt ráðsins.
Starfsemi félagsins byggir að mestu leyti á öflugu starfi nefnda, ráða og klúbba, sem starfa eftir starfslýsingum sem nálgast má hér á heimasíðunni undir liðnum UM FÉLAGIÐ. Það er mikilsvert að sem flestir komi að starfinu svo þeir og aðrir félagar geti notið ánægjulegs og öflugs félagsstarfs. Slík störf eru mjög gefandi fyrir þá sem að því koma. Félag eldri borgara á Akureyri er metnaðarfullt félag sem vill bjóða félagsmönnum sínum og öðrum eldri borgurum upp á áhugavert og gefandi félagsstarf. Með því vill það stuðla að og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni þessa aldurshóps til að njóta efri áranna, eftir vilja og getu hvers og eins.