Aðalfundur félags eldri borgara 2014

Aðalfundur Félags eldri borgara á Akureyri var haldinn í Bugðusíðu 1 þann 24. mars 2014. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf. Fundinn sóttu um 70 manns.

Aðalfundur Félags eldri borgara var haldinn í Bugðusíðu 1 þann 24. mars sl. Fundinn sóttu um 70 manns. Að loknu kjöri starfsmanna fundarins þ.e. fundarstjóra og  ritara  var gengið til dagskrár. Formaður félagsins Sigurður Hermannsson flutti skýrslu stjórnar. Þar kom m.a. fram að stjórnin hélt 11 stjórnarfundi á milli aðalfunda þ.e. frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 21. mars 2013. Starf nefnda félagsins var með hefðbundnum hætti og  er hryggjarstykkið í starfsemi félagsins eins og fram kemur í skýrslunni. Viðvera stjórnarmanna á skrifstofu félagsins á fimmtudögum milli kl. 14:00 og 16:00 hefur sannað gildi sitt en hún hófst 2007. Í skýrslunni er fjallað um starfsemi félagsmiðstöðvanna í Bugðusíðu og Víðilundi og það góða starf sem þar er unnið í þágu 60 ára og eldri. Stjórn félagsins hefur komið því á framfæri við Akureyrarbæ að lokun félagsmiðstöðvanna yfir sumarið sé allt of löng og úr því þurfi að bæta. Tveir samráðsfundir voru haldnir með fulltrúum frá Akureyrarbæ er varðar starfsemi félagsmiðstöðvanna og önnur málefni er varða þjónustu við 60 ára og eldri.  Í skýrslunni er fjallað um aðalfund Landssambands eldri borgara en félagið átti 4 fulltrúa á fundinum. Landssambandið er málsvari félaga eldri borgara  á landsvísu og vinnur að ýmsum hagsmunamálum þessa aldurshóps. Eitt af verkefnum stjórnar var gerð heimasíðu fyrir félagið en hún var opnuð í janúar sl. Eru bundnar vonir við að síðan nýtist félaginu á ýmsum sviðum til hagsbóta fyrir félagsmenn.  Gert er ráð fyrir að skýrsla stjórnar ásamt fundargerð  aðalfundarins verði birt hér á heimasíðunni.

Gjaldkeri félagsins Einar Gunnarsson gerði grein fyrir reikningum félagsins. Þar kom m.a. fram að rekstrartekjur félagsins voru kr. 3.170.374 og rekstrargjöld kr. 3.386.440. Vaxtatekjur og verðbætur að frádregnum fjármagnstekjuskatti voru kr. 970.796. Hagnaður af reglulegri starfsemi var því 754.730.

Talsmenn allra nefnda félagsins gerðu grein fyrir störfum nefndanna og fulltrúi kórs eldri borgara - Í fínu formi - sagði frá starfi kórsins.

Tillögur uppstillingarefndar um kosningu í stjórn og nefndir félagsins voru samþykktar samhljóða og einnig tillaga um skoðunarmenn reikninga.

Tillaga stjórnar félagsins um árgjald fyrir árið 2015 kr. 2.300 var samþykkt samhljóða.