Almennur félagsfundur

Almennur félagsfundur Félags eldri borgara á Akureyri var haldinn í Bugðusíðu 2. sept. sl.

Almennur félagsfundur Félags eldri borgara á Akureyri var haldinn 2. sept. sl. Gestir fundarins og frummælendur voru: Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fyrrverandi formaður LEB og Soffía Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Búsetudeildar Akureyrarbæjar. Fundarstjóri var formaður félagsins, Sigurður Hermannsson. Fundinn sóttu 140-150 manns.

Í máli Hauks kom m.a. fram að um 40 þúsund Íslendingar eru 67 ára og eldri. Um 92-94% þeirra búa á heimilum sínum og hagar lífi sínu að eigin geðþótta. 2.500 hjúkrunarrými eru á hjúkrunarheimilum. Segja má að 3ja æviskeiðið hafi orðið til þ.e.a.s. æviskeiðið  70-100 ára aldurinn. Á síðustu 30 árum hefur meðalævin lengst um 6 ár hjá körlum  og 4 ár hjá konum.

Stoðirnar sem afkoma eldri borgara byggir á eru þessar:

a) Lífeyrissjóðakerfi samtaka vinnuveitenda og launþega. b) Almannatryggingakerfi ríkisins. c) Félagsþjónustkerfi sveitarfélanna. d) Einstaklingurinn sjálfur með sparnaði og eigin húsnæði.

Í máli Jónu Valgerðar  kom fram að LEB sem stofnað var 1989 vinnur að hagsmuna- velferðar- og áhugamálum eldri borgara og kemur fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart Alþingi, ríkistjórn og stjórnvöldum öðrum, sem sinna málefnum eldri borgara fyrir landið í heild. Hún ræddi sérstaklega um hugmyndir um breytingar á almannatrygginga-kerfinu. Þær fela m.a. í sér eftirfarandi:

a) Grunnlífeyrir, tekjutrygging og framfærsluuppbót  verði sameinaðir. b) Bætur lækki um 45% af öllum tekjum utan séreignalífeyrissparnaðar og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga og verði án frítekjumarks. c) Réttindakerfi almannatrygginga og lífeyrissjóða verði samræmt. d) Eftirlaunaaldur verði hækkaður úr 67 árum í 70 ár, starfslok verði heimiluð frá 65 árum til 80 ára og hlutavinna og hlutabætur heimilaðar. e) Húsnæðisbætur jafni stöðu eigenda, leigjenda og búseturéttarhafa.

 Soffía fjallaði um og gerði grein fyrir þjónustu við eldri borgara hjá Akureyrarbæ (sjá heimasíðu AK). Í máli hennar kom m.a fram að margt af því sem gert er fyrir þennan aldurshóp er til fyrirmyndar. Hún nefndi m.a. samning sem gerður var nýlega milli bæjarins og landlæknis um heilsueflingu hjá öllum aldurshópum í bænum. Þá ræddi Soffía um hvað velferðartækni felur í sér og nefndi nokkur dæmi í  því sambandi.

Í fundarhléi var boðið upp á kaffi og kleinur. Síðan hófust líflegar umræður og fyrirspurnir til framsögumanna.

Í lok fundarins var eftirfarandi ályktun borin upp og samþykkt samhljóða:

Almennur félagsfundar Félags eldri borgara á Akureyri haldinn að Bugðusíðu 1 miðvikudaginn 2. september 2015 skorar á ríkistjórn og Alþingi að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja jafn mikið og lágmarkslaun hækkuðu um 1. maí sl. þ.e. um 31 þúsund kr. á mánuði. Hækkunin taki gildi frá 1. maí 2015.

Jafnframt skorar fundurinn á ríkistjórn og Alþingi að aldraðir og öryrkjar fái á næstu þremur árum sömu hækkun og að lágmarks bætur verði hækkaðar í 300 þúsund kr. á mánuði. Einnig að stjórnarflokkarnir standi við gefin loforð um að kjaraskerðingin frá árunum 2009 til 2013 verði að fullu bætt.  HG