Flýtilyklar
Áramótapistill formanns EBAK
Ágætu félagar og aðrir lesendur þessa pistils.
Ég færi ykkur öllum kærar þakkir fyrir nýliðið ár og óska ykkur jafnframt velfarnaðar á því nýja. Það liggur við að það megi endurnýta síðasta pistil, vegna þess að aðstæður hafa verið óþarflega líkar á liðnu ári og þær voru á árinu 2020. Þá tókst okkur ekki að halda aðalfund fyrr en í júníbyrjun og það sama var uppi á teningnum 2021. Fjöldatakmarkanir komu hvað eftir annað í veg fyrir eðlilega starfsemi bæði þessi ár, en við látum ekki deigan síga og erum staðráðin í að halda starfinu áfram eins og unnt er.
Við skulum byrja á að líta aðeins til baka og horfa síðan fram á veginn. Fyrstu tvo mánuði síðasta árs annaðist félagið starfsmannahald í Bugðusíðu. Það verður að segjast eins og er að það var býsna þungu fargi létt af stjórn félagsins þegar Akureyrarbær tók aftur við því í mars síðastliðnum.
Nýr forstöðumaður tómstundamála tók til starfa hjá bænum í upphafi ársins, í kjölfarið fylgdu breytingar á starfsmannahaldi og hluti af starfsemi Punktsins fluttist svo upp í Víðilund í haust. Við þetta breyttist ýmislegt. Úrval af námskeiðum jókst og einnig áherslan á heilsueflingu eldri borgara. Heilsan er undirstaða vellíðunar og þess vegna er nauðsynlegt að hver og einn hlúi að heilsu sinni eins og unnt er. Hreyfing og líkamsæfingar af ýmsum toga eru þarfar fyrir alla án tillits til aldurs eða getu. Vegna ástandsins í þjóðfélaginu veitti félagsmálaráðuneytið sveitarfélögum um land allt styrk til eflingar heilsuræktar fyrir eldra fólk. Akureyrarbær nýtti sinn hluta af styrknum vel til ýmissa verkefna, einkum til sumarstarfs og nutu margir góðs af því. Þá stóð göngunefnd EBAK fyrir þriðjudagsgöngum í Kjarnaskógi eins og undanfarna áratugi og gönguklúbburinn starfaði út september með sínar 4-10 km. löngu göngur. Eftir það tóku nokkrar kjarnakonur sig til og stóðu fyrir göngum fram í desember. Ekki er ljóst hvenær göngurnar hefjast á nýju ári, en það verður tilkynnt þegar að því kemur. Á meðan veturinn hefur völdin er tilvalið að ganga í Boganum.
Á árinu hófst vinna við aðgerðaáætlun um málefni eldri borgara, en það verkefni hefur verið á óskalista félagsins og öldungaráðs í nokkur ár. Fyrsti áfanginn sneri einkum að heilsueflingu og lauk starfshópur, sem Akureyrarbær skipaði, vinnu við hann með skýrslu á haustdögum. Sá ánægjulegi árangur varð af því verkefni að í fjárhagsáætlun bæjarins er gert ráð fyrir ríflega 20 milljónum króna til að koma málinu af stað. Við vonumst til að því verði komið í framkvæmd sem allra fyrst og verði fastur liður til framtíðar. Þá er líka nauðsynlegt að ákveða sem fyrst hvaða verkefni verður í næsta áfanga og hefja vinnu við hann.
Samstarf okkar við Búfesti um byggingu tveggja fjölbýlishúsa fyrir eldra fólk er í góðum farvegi. Áætlanir gera ráð fyrir að lóðirnar verði afhentar til bygginga í maí á næsta ári og ef allt gengur að óskum ættu fyrstu íbúðirnar að vera tilbúnar til afhendingar fyrri hluta sumarsins 2023. Vonast var til að Akureyrarbær fengist til að koma að þjónusturými fyrir okkar aldurshóp sem áætlað er að verði á milli þessara tveggja húsa. Því miður fékkst það ekki í gegn, en opið bréf sem undirritaður ritaði fyrir hönd stjórnarinnar til bæjarráðs og birtist nokkuð víða, vakti dágóða athygli. Vonandi hefur það opnað einhver augu, en ljóst er að baráttu okkar um stærra og hagkvæmara húsnæði fyrir tómstundastarf félagsins, sem hefur í rauninni staðið frá árinu 2001, er hvergi nærri lokið. Það er óhætt að segja að bæjaryfirvöld hafi ekki staðið sig sem skyldi við forgangsröðun fjármála. Því þurfum við að standa saman við að koma okkar málum á framfæri strax í undirbúningi sveitastjórnarkosninganna næsta vor og halda síðan áfram að hamra á þeim þar til eitthvað gerist.
Við skulum taka á móti nýju ári með bjartsýni að leiðarljósi, þótt margt bendi til að fyrstu mánuðirnir verði okkur þungir í skauti. Síðan kemur vonandi betri tíð án samkomutakmarkana. Nýtum okkur möguleikana, eins vel og leyfilegt verður, til að fjölga samverustundunum. Vonum að sem flest okkar geti verið virk í þeirri starfsemi sem hægt verður að bjóða upp á, bæði í félagsmiðstöðvunum og utan þeirra.
Lifið heil.
Hallgrímur Gíslason, fomaður EBAK.