Fjölmennur félagsfundur í Bugðusíðu

Þann 14. janúar sl. boðaði stjórn félags eldri borara til almenns félagsfundar í Bugðusíðu. Tilefnið var heimsókn fulltrúa frá Landssambandi eldri borgara en þeir voru Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Haukur Ingibergsson, Eyjólfur Eysteinsson og Anna Lútersdóttir.

Þann 14. janúar sl. boðaði stjórn félags eldri borgara til almenns félagsfundar í Bugðusíðu. Tilefnið var heimsókn fulltrúa frá Landssambandi eldri borgara en þeir voru; Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Haukur Ingibergsson, Eyjólfur Eysteinsson og Anna Lútersdóttir. Fundarstjóri var formaður félasins Sigurður Hermannson.

Allir fulltrúar sambandsins fluttu ávörp í upphafi fundarins og fjölluðu um þau málefni sem sambandið vinnur að um þessar mundir. Fram kom að mjög mikil vinna hefur verið lögð í umsagnir um mál sem eru á dagskrá Alþingis og snerta málefni eldri borgara á landsvísu. Þá á landssambandið fulltrúa í ýmsum vinnuhópum sem stjórnvöld hafa sett á laggirnar sem vinna að málefnum eldri borgara. Þá er stöðugt verið að minna stjórnvöld og sveitarstjórnir á að leiðrétta þurfi kjör eldri borgara m.a. vegna þeirra kjaraskerðinga sem þessi aldurshópur varð fyrir í kjölfar bankahrunsins 2008. Margt hefur áunnist en betur má ef duga skal.

Þá hefur landssambandið hvatt félög eldri borgara um allt land til þess að vinna að því að í hverju sveitarfélagi sé starfandi öldungaráð. Þessi ráð eiga að vera samstarfsvettvangur sveitarstjórnar og eldri borgara í hverju sveitarfélagi  um þau mál sem snerta þennan aldurshóp.

Seinni hluti fundartímans fór í fyrirspurnir og umræður um málefni aldraðra m.a. um heilsugæslu, heilsuhæli, dagvistun, heimaþjónustu o.fl. Fundurinn stóð í tæpar tvær klukkustundir  með kaffihléi. Ljóst er að landssambandið hefur eftir mætti unnið ötullega að bættum kjörum eldri borgara og að öðrum málum sem snertir velferð þessa aldurshóps.  Góð mæting félagsmanna á fundinn var til fyrirmyndar. HG.