Frá Fræðslunefnd

Þá er lokið þriðja málþingi sem HA og Ebak standa fyrir. Dagurinn hófst með hreyfistund í morgun þar sem þjálfarar frá Bjargi Ósk Jórunn og Eva Reykjalín liðkuðu þá félagsmenn sem komu (rúmlega 20 manns). Undir dynjandi sumbatakti framdi fólk miklar mjaðmasveiflur og brenndi líklega mörgum hitaeiningum. Þetta var skemmtileg stund. Kl. 12.30 hóf kórinn Í fínu formi upp raust sína og söng eins og honum einum er lagið í hálfa klukkustund. Flottur kór það. Kl. 13.00 var málþingið sett og var mæting ótrúlega góð, um 250 manns voru í salnum þegar flest var. Gaman var að sjá að fólk kom frá Siglufirði, Sauðárkróki, Húsavík og víðar. Létt var yfir fólki og erindin voru fróðleg og sett fram á mannamáli. Meðal þess sem skoðað var: var hvað vatnið gerir fyrir líkamann innan frá, hvernig takast má á við starfslok á góðan hátt. Hvað er til ráða gagnvart sykursýki fullorðinna, svarað var spurningunni hvað er ökumat? Spékoppar kitluðu hláturtaugarnar eins og þeir kunna best með innsýn í akstursvandamál sem upp geta komið, þegar menn verða litblindir, sjóndaprir og heyrnarlausir en keyra samt. Í hléi var leikin notaleg tónlist af Núma Adolfssyni og Pálma Björnssyni og Ebak bauð upp á kleinur og kaffi. Eftir hlé veltu nokkrir eldri borgarar fyrir sér sannleiksgildi fjögurra íslenskra málshátta. En niðurstaða fékkst ekki í þeim öllum. Talað var um leiðir til efla sig og reyna að koma í veg fyrir heilabilun. Þar og til varnar sykursýkinni er hreyfingin aðalatriði. Síðasta erindið flutti Sigrún Sveinbjörnsdóttir, sálfr. og eldri borgari og ræddi um manns eigin hugsun sem við getum breytt og það að þora að takast á við nýjar áskoranir. Þetta erindi var fallegt, hjartnæmt og áhrifamikið. Að lokum töluðu Haukar tveir, Ingibergsson form. Landsambands eldri borgara og Halldórsson form. Félags eldri borgara á Akureyri og þökkuðu fundargestum fyrir daginn.