Flýtilyklar
Frá fræðslunefnd Félags eldri borgara á Akureyri
Fræðslunefndina skipa: Guðbjörg Bjarman formaður, Magnús Aðalbjörnsson, gjaldkeri og Valgerður Jónsdóttir, ritari.
Fræðslunefndin býður upp á nokkuð fjölbreytta dagskrá veturinn 2013-2014.
Tveir fræðslufundir verða haldnir fyrir jól.
Þann 7. október rabbaði Guðbjörg Bjarman um Húsmæðraskóla á síldveiðum veturinn 1953.
Þann 11. nóvember flytur Jóhann Sigurjónsson, fyrrum kennari og skólameistari við MA, erindi um Fannardalskrossinn.
(Fannardalskrossinn er gotneskur róðukross, sennilega frá því um 1300, sem rak á Krossfjöru við Norðfjörð innanverðan og hefur að geyma merkilega sögu)
Þann 21. október hófst námskeið í framsögn og leikrænni tjáningu sem Saga Jónsdóttir leikkona stýrir og er þetta þriðji veturinn sem slíkt námskeið er haldið. Þátttakendur eru 17 og er námskeiðið að minnsta kosti í 4 skipti. Þarna er mikið gantast og hlegið en vonandi líka numið.
Eftir áramót verða flutt þrjú erindi um umhverfismál á Akureyri og verða þau auglýst síðar.
Samstarf hófst við Menntaskólann á Akureyri síðastliðið vor. Það köllum við: Hvað ungur temur, gamall nemur. En þá leiðbeindu nemendur á fjórða ári eldri borgurum um tölvunotkun. Þetta námskeið var afar vel sótt og komust færri að en vildu. Svipað námskeið verður haldið eftir áramót og mun verða auglýst síðar.
Enskukennsla verður í boði á vegum MA eftir áramót.
Í maí 2014 verður haldin ráðstefna á vegum Félags eldri borgara og Háskólans á Akureyri og verður hún með svipuðu sniði og sú fyrri sem haldin var vorið 2012. En hún þótti takast vel og var sótt af um 180 manns.