Flýtilyklar
Fréttabréf 3
Félagsstarfið:
Eins og áður hefur starfsemi félagsins verið með miklum blóma það sem af er ári, en nú fer að hægjast um þegar vetrarstarfinu lýkur. Skrifstofan verður þó opin eins og venjulega, nema tvær vikur í júlí.
Okkur hefur borist erindi frá „Virk efri ár“ þar sem stungið er upp á að félagsmenn okkar taki þátt í verkefninu „göngum í skólann“ í haust. Þetta snýst um að við gamlingjarnir, sinnum gangbrautarvörslu á morgnana þegar nemendur grunnskólanna eru á leið í skólann. Reiknað er með að þetta verkefni standi yfir frá ca 26. ágúst í eina viku. Verkefnið verður í nánu samstarfi við skólana og þátttakendur fá vesti og verður úthlutað gangbrautum eftir því sem við á. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt eru vinsamlega beðnir að hafa samband við skrifstofuna og skrá sig. Nánari upplýsingar koma síðar.
Nýkjörin stjórn félagsins hefur haldið fjóra fundi hingað til og vinnur nú m.a. að endurskoðun samþykkta félagsins svo og á hlutverki stjórnar, ráða og starfsmanns. Auk þess að endurskoða og einfalda starfslýsingar nefnda félagsins.
LEB þing:
Landsfundur Landssambands eldri borgara, LEB, var haldinn 14.maí s.l. í Reykjavík. Um 150 fulltrúar sátu fundinn og átti EBAK 10 fulltrúa. Þóra Hjaltadóttir, stjórnarmaður í EBAK, var kjörin í aðalstjórn Landssambandsins. Nánari upplýsingar um fundinn eru á heimasíðu LEB www.leb.is , þar er einnig hægt að lesa Leb blaðið. https://www.leb.is/listin-ad-lifa/ Hægt er að nálgast blaðið á skrifstofu EBAK. Auk þess er afsláttarbókin á þessari slóð: https://www.leb.is/wp-content/uploads/2024/03/LEBAfslattarbok-2024-vefur.pdf . Minnt er á appið spara og leiðbeiningar þar um https://www.leb.is/app/ Félagar eru hvattir til að kynna sér efni síðunnar því þar er margt fróðlegt og gagnlegt.
Kjaramál:
Eins og menn vita hefur lítið þokast í kjaramálum eldri borgara á landinu. Kjaramálahópur EBAK hefur þó lagt sitt af mörkum í baráttunni með ýmsum vel sóttum fundum, nú síðast með þingmönnum kjördæmisins. Þráðurinn verður svo tekinn upp með haustinu, en þá er á dagskrá fundur með bæjarfulltrúum á Akureyri. Það er mjög mikilvægt að félagsmenn fjölmenni á svona fundi til að senda ákveðin skilaboð um að þeim standi ekki á sama, minnug þess að dropinn holar steininn.
Húsnæðismál:
Húsnæðishópur EBAK vinnur stöðugt að því að finna leiðir til að auka framboð á hentugu húsnæði fyrir okkar fólk. Gerð var húsnæðiskönnun meðal félagsmanna og var svörun mjög góð. 673 félagsmenn svöruðu og það gefur mjög góða mynd af óskum félagsmanna og þörfum. Þar kemur líka í ljós að þörf á hentugu húsnæði fyrir okkar fólk er mjög mikil. Niðurstöður könnunarinnar hafa verið sendar víða og vakið verðskuldaða athygli og er verið að vinna með þær áfram. Áhugasamir geta fengið myndrænar niðurstöður sendar í tölvupósti, eða komið á skrifstofuna og fengið prentað eintak.
Vinnuhópur á vegum bæjarins um stefnumörkun um lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk, þar sem undirritaður á sæti, hefur verið að störfum og mun leggja fram tillögur sýnar fyrir 1. júlí. Horft er til þess að slíkur lífsgæðakjarni verði staðsettur ofan Hagahverfis og sunnan Naustahverfis.
Í ferli er einnig að hentugar íbúðir með fjölbreyttu eignarformi verði byggðar við Þursaholt svo og á Tjaldsvæðareit þegar hann verður tilbúinn til úthlutunar.
Einnig er nú unnið að nýjum hugmyndum varðandi framtíðarlausn á félagsaðstöðu EBAK. Vonast er til að hægt verði að kynna þá lausn með haustinu.
Hér hefur verið stiklað á stóru í starfi félagsins og eins og sést er af nógu að taka. Félagsmönnum fjölgar stöðugt og það er sönn ánægja og heiður að fá að vinna fyrir þennan góða hóp.
Með vinsemd og virðingu.
Karl Erlendsson, formaður EBAK