Flýtilyklar
Fréttabréf 4.
Fréttabéf 4.
Október 2024
Félagsstarfið:
Nú er félagsstarfið komið á fullt skrið eftir sumarfríið. Vetrarstarfið er með hefðbundnum hætti. Skrifstofa félagsins í Bugðusíðu 1 er opin á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum á milli 13 og 15. Félagar eru hvattir til að kíkja við til skrafs og ráðagerðar og eru nýir félagar sérstaklega velkomnir. Samstarfið við Akureyrarbæ er ljómandi gott og starfið í Birtu og Sölku með svipuðu sniði og áður. Alltaf er þó reynt að brydda upp á nýjungum og, ef félagsmenn liggja á góðum hugmyndum um starfið, þá ekki hika við að koma þeim hugmyndum á framfæri.
Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér dagskrá Virkra efri ára hjá Akureyrarbæ sjá. https://www.akureyri.is/static/files/01_akureyri.is/Virk_efri_ar/virk-efri-ar-dagskra-haust-2024.pdf .
Á miðvikudögum er boðið upp á Ringó í Síðuskóla og nú býðst þáttakendum að snæða hádegisverð í mötuneyti skólans að lokinni æfingu. Þessari nýjung hefur verið mjög vel tekið.
Enn er leitað eftir lestraröfum og ömmum til að lesa með börnum í skólunum. Endilega hafið samband við undirritaðan ef þið hafið áhuga á þessu verkefni, en til að byrja með fer verkefnið af stað í Glerárskóla. Hér er þó ekki um að ræða neina skuldbindingu, en unnið í nánu samstarfi við kennara og skólastjórnendur.
Húsnæðismálin:
Starfshópur um byggingu lífsgæðakjarna á Akureyri hefur lokið störfum og skýrsla hópsins verður lögð fyrir bæjarstjórn fljótlega. Niðurstaða hópsins er sú að ráðist skuli í uppbyggingu „lífsgæðakjarna“ við Þursaholt. Þar eru lóðir tilbúnar og ákveðið að byggja 80 – 90 rýma hjúkrunarheimili og í tengslum við það 60 – 70 íbúðir fyrir eldra fólk ásamt þjónust miðstöð. Einnig er lagt til að hafinn verði undirbúningur undir byggingu lífsgæðakjarna að erlendri fyrirmynd á svæði sunnan Naustahverfis og ofan Hagahverfis. Þarna þarf að breyta aðalskipulagi og raunhæft er að þarna geti framkvæmdir hafist eftir 5-10 ár.
Félagið sótti um lóðir undir íbúðir á Tjaldsvæðareitnum svo kallaða, til að tryggja að þar verði byggt fyrir 60 ára og eldri. Við fengum þá svör að ekki væri tímabært að úthluta lóðum en tryggt verði að hluti svæðisins verði ætlaður eldri borgurum og það mál unnið í nánu samstarfi við félagið. Framkvæmdir ættu að geta hafist 2026.
Í samvinnu við Akureyrarbæ, bæjarráð og bæjarstjóra var mikil vinna lögð í að kanna möguleg kaup á líkamsræktarstöðinni Bjargi til að breyta henni í félagsmiðstöð og félagsaðstöðu EBAK. Þeirri vinnu lauk frekar skyndilega nú á hausdögum, þegar eigendur Bjargs ákváðu að stöðin væri ekki lengur til sölu, enda reksturinn blómlegur. Nú hefur því enn verið dustað rykið af fyrri hugmyndum um að byggja við Birtu, enda öllum ljóst sem til þekkja að aðstaðan er alltof lítil og stendur félagsstarfinu fyrir þrifum. Rétt er þó að minnast á að Akureyrarbær býður okkur afnot af sölum í skólunum okkur að kostnaðarlausu svo og nokkrum sinnu á ári í Hofi og ber að þakka fyrir það.
Kjaramál:
EBAK hefur í meiri mæli snúið sér að hagsmunbaráttu félagsmanna og á landsvísu. Varaformaður félagsins, Björn Snæbjörnsson er formaður kjarahóps LEB og í haust hafa verið haldnir kjarafundir um allt land þar sem Helgi Pétursson formaður LEB fer yfir starfsemi landsambandsins og Björn hefur farið yfir stöðu eldra fólks er varðar greiðslur og fl. Þetta hafa verið flottir fundir og fræðandi.
Í framhaldi af þessu verður svo haldinn fundur á vegum EBAK með þeim bæjarfulltrúum sem mynda núverandi bæjarstjórn. Fundurinn verður í Brekkuskóla frá kl. 16:00 til 18:00, fimmtudaginn 23. október 2024. Nú er um að gera að fjólmenna til að sýna bæjarfulltrúunum að okkur standi ekki á sama og að aðgerðir bæjarins í málefnum eldra fólks sé mikilvæg.
Síðan boðar félagið til almenns félagsfundar þann 20. nóvember n.k.. Nánar um það síðar.
Kæru félagar, hér er aðeins stiklað á stóru í starfseminni, sem fer sífellt vaxandi og ég trúi því að saman stöndum við sterkari. Nú eru félagsmenn um 2650 og munum við þar með vera næst fjölmennasta félag innan Landssambands eldri borgara, LEB.
Ekki hika við að hafa samband til að koma á framfæri skoðunum ykkar og athugasemdum.
Minni svo aftur á fundinn í Brekkuskóla 23. okt. Kl. 16:00 með bæjarfulltrúum og almenna félagsfundinn 20. nóv. sem verður auglýstur síðar.
Með vinsemd og virðingu.
Karl Erlendsson, formaður EBAK