Gönguhópur

Göngunefnd stendur fyrir vikulegum gönguferðum í Kjarnaskógi í sumar eins og undanfarin sumur. Í starfslýsingu nefndarinnar er mælst til að hún hlutist til um stofnun gönguhóps til að standa fyrir lengri og/eða erfiðari gönguferðum, ma. fjallaferðum.

Til að undirbúa verkefnið boðuðu göngunefnd og stjórn EBAK til opins félagsfundar í félagsmiðstöð eldri borgara í Bugðusíðu 15. maí 2017 kl. 10:00. Þar mættu frá stjórn EBAK Halldór Gunnarsson, Hallgrímur Gíslason og Margrét Pétursdóttir og frá göngunefnd Soffía Jónsdóttir og Gylfi Guðmarsson. Gestur fundarins var Bjarni Guðleifsson. 20 manns sóttu fundinn.

Halldór Gunnarsson var fundarstjóri en Soffía Jónsdóttir ritaði fundargerð. Halldór setti fundinn,  bauð fólk velkomið og kynnti tilgang fundarins. Lýsti hann ánægju fundarboðenda með góða mætingu. Skriflegri dagskrá var dreift til fundarmanna.

Gestur fundarins, Bjarni Guðleifsson, talaði um að gönguferðir væru mikil heilsubót bæði andlega og líkamlega. Sagði hann mikilvægt að fara rólega af stað, en bæta frekar í síðar. Þá sagði hann frá nokkrum góðum gönguleiðum. Einnig taldi hann gott að hafa leiðsögumann með í för og lagði til að við fengjum að hengja okkur á Ferðafélag Akureyrar í eina til tvær ferðir í sumar.

Að loknu spjalli Bjarna voru málefnalegar og góðar umræður og fyrirspurnir. Ýmsar tillögur komu fram hjá fundarmönnum um skemmtilegar gönguleiðir við Eyjafjörð og í nágrenninu.

Fljótlega verður hafist handa við að skipuleggja sumarstarfið og auglýsa ferðir.

Fundarstjóri óskaði eftir sjálfboðaliðum til að leiða starfið í sumar og gáfu eftirtaldir þrír einstaklingar kost á sér: Jónas Stefánsson, Svala Sigurðardóttir og Valgerður Jónsdóttir.

Fyrsta gönguferðin á vegum hópsins verður auglýst fljótlega.