Hugmyndakassi

Félag eldri borgara á Akureyri sem var stofnað árið 1982 hefur í 33 ár leitast við að bjóða upp á sem fjölbreyttast félags- og afþreyingarstarf fyrir eldri borgara á Akureyri.

Félag eldri borgara á Akureyri sem var stofnað árið 1982 hefur í 33 ár leitast við að bjóða upp á sem fjölbreyttast félags- og afþreyingarstarf fyrir eldri borgara á Akureyri. Það hefur m.a. verið gert með því að kjósa nefndir til að sinna mismunandi verkefnum og afþreyingu. Þær nefndir sem hafa starfað undanfarin ár eru: fræðslunefnd, ferðanefnd, göngunefnd, skemmtinefnd, kaffinefnd og spilanefndir.

Nefndirnar hafa skipulagt margþætta afþreyingu og viðburði. Heiti nefnda segir almennt til um helstu verkefni þeirra. Nú hefur félagið ákveðið að ráðast í kynningu á félaginu og að gera könnun sem hlotið hefur nafnið "HUGMYNDAKASSINN" á meðal eldri borgara á Akureyri. Tilgangurinn er að kanna hug þeirra til starfsemi félagsins og hvernig hægt er að auka framboð á afþreyingu þannig að félagið geti betur sinnt hlutverki sínu og náð til fleiri eldri borgara en það gerir í dag.

Tilgangur könnunarinnar er tvíþættur. Í fyrsta lagi að kanna hug félagsmanna til þeirrar starfsemi sem félagið hefur haldið úti undanfarin ár og í öðru lagi að fá hugmyndir félagsmanna að nýjum verkefnum.

Könnuninni var hleypt af stokkunum mánudaginn 23. febrúar sl. og stendur til 6. mars n.k. Eyðublöð til útfyllingar liggja frammi í félagsmiðstöðvunum í Bugðusíðu 1 og Víðilundi 22 alla virka daga á milli kl. 10:00 og 16:00. Þá er einnig hægt að fara inn á heimasíðu félagsins www.ebak.is og fylla út sömu eyðublöð þar eða prenta þau út og fylla út og setja þau í þar til gerða kassa í félagsmiðstövunum.

Þeir sem taka þátt þurfa ekki nauðsynlega að skila þátttökublöðum fyrir allar nefndirnar því ræður hver og einn eftir sínu áhugasviði.