Hvað hefur þú til málanna að leggja?

Hvað hefur þú til málanna að leggja var yfirskrift opins fundar Félags eldri borgara á fundi í Bugðusíðu.

Hvað hefur þú til málanna að leggja var yfirskrif opins fundar Félags eldri borgara á fundi í Bugðusíðu 22. febrúar sl. Megin tilefni fundarins var að kynna niðurstöður úr viðhorfskönnun sem félagið stóð fyrir á síðasta ári. Einnig að ræða í smærri hópum niðurstöður könnnunarinnar, nýjar hugmyndir sem þar komu fram og hugmyndir að nýjum verkefnum stjórnar og nefnda félagins sem umræðan í hópunum leiddi af sér.

Stjórn félagsins skipaði á haustdögum 2014 fimm manna nefnd til að framkvæma könnunina. Í nefndinni sátu, Arnheiður Kristinsdóttir, Guðmundur Ó Guðmundsson, Karl E Steingrímsson, Hulda Eggertsdóttir og Svava Karlsdóttir. Könnunin gekk undir nafninu "kassakönnun."

Tilgangurinn með könnuninni var tvíþættur. Í fyrsta lagi að kanna hug félagsmanna til þeirrar starfsemi sem félagið hefur haldið úti undanfarin ár og í öðru lagi að fá hugmyndir félagsmanna að öðrum og/eða nýjum verkefnum. Könnunin fór fram í Bugðusíðu, Víðilundi og á heimasíðu félagsins.

 Þátttaka í könnuninni var fremur dræm en gefur samt vísbendingar um viðhorf félagsmanna til þess félagsstarf sem boðið er upp á um þessar mundir og hugmyndir að nýjum verkefnum.

Könnunin sýnir afgerandi niðurstöðu um að þátttakendur eru ánægðir með það starf sem unnið er og margar nýjar hugmyndir komu fram um aukið framboð á afþreyingu og tómstundastarfi hjá félaginu.

Fundurinn hófst á því að Guðmundur Ó Guðmundsson kynnti með glærusýningu aðdragandann og vinnu kassanefndar við framkvæmd könnunarinnar,  þátttöku félagsmanna,  úrvinnslu og helstu niðurstöður.

Að kynningu lokinni tók Valgerður Jónsdóttir við og skipti fundarmönnum upp í sex umræðuhópa með talningu. Hver hópur hafði borðstjóra og ritara. Farnar voru þrjár umferðir í hópumræðum. Eftir fyrstu lotu í 20 mín. var kaffihlé en að því loknu völdu fundarmenn sér nýtt borð/málefni  og stóð umræðan aftur í ca 20 mín. Aftur gátu fundarmenn valið sér borð/málefni í ca. 10 mín. Að lokum komu allir saman í sal og gerði hver hópur grein fyrir því helsta sem komið hafði fram í hópaumræðunni. Unnið verður með niðurstöður úr umræðunni í hópunum hjá nefndum og stjórn félagsins.

Um 60 manns sóttu fundinn sem þótti takast vel. HG