Flýtilyklar
Kynningarfundur á nýrri heimasíðu.
Í dag 13. janúar var haldinn kynningarfundur á nýrri heimasíðu Félags eldri borgara á Akureyri. Fundurinn var haldinn í Bugðusíðu 1 og var vel sóttur eða um 65 manns. Formaður félagsins Sigurður Hermannsson og starfsmaður Stefnu hugbúnaðarhúss Daníel Örn Stefánsson sáu um kynninguna. Undirbúningur að gerð heimasíðunnar hefur staðið yfir um nokkurt skeið og hefur Halldór Gunnarsson stjórnarmaður verið tengiliður félagsins við Stefnu ásamt Sigurði formanni. Eins og kom fram á fundinum býður heimasíðan uppá ýmsar hagnýtar upplýsingar, fróðleik og afþreyingu. Á forsíðunni er eyðublað til að fylla út óski fólk að ganga í félagið. Þá er aðgengilegt form á forsíðunni til að senda fyrirspurnir og/eða athugasemdir til stjórnar eða nefnda félagsins. Auðvelt er að setja inn efni s.s. fréttir, fundargerðir, myndir, kveðskap, hvað sé á döfinni í félagsstarfinu o.s.frv. Stjórnin vonast til að þessi nýja heimasíða efli starfsemi félagsins og verði félagsmönnum til hagsbóta. Þá óskar stjórn félagsins eftir því við ykkur félagsmenn að þið leggið okkur lið við öflun efnis til birtingar á heimasíðunni.