Flýtilyklar
Nýtt samkomulag
Í gær (31 maí sl.) var undirritað nýtt samkomulag milli Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara á Akureyri sem miðar að því að eldri borgar á Akureyri eigi áfram kost á góðu félags- og tómstundastarfi til að viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni svo þeir fái notið sem best efri áranna.
Félagið mun áfram hafa afnot af félagsmiðstöðinni í Bugðusíðu sér að kostnaðarlausu og þar verður einnig starfsmaður á vegum Akureyrarbæjar. Einnig er kveðið á um fjárstyrk til félagsins. Starfið í Bugðusíðu er opið öllum eldri borgurum í bænum.
Félag eldri borgara mun koma að skipulagi félagsstarfs með Akureyrarbæ. Markmið samkomulagsins er að félagið og þeir sem þjónustunnar njóta komi í auknum mæli að skipulagi, umsjón og og frumkvæði í starfinu. Félagið mun einnig tilnefna tvo fulltrúa í notendaráð félagsstarfsins.
Samkomulagið nær til áranna 2016 og 2017 og tekur við af samkomulagi sem var gert árið 2008. Samkomulag var fyrst gert við Félag eldri borgara á Akureyri árið 2005 þegar félagið flutti aðstöðu sína úr gamla Alþýðuhúsinu yfir í Bugðusíðu.
Félagsstarf á vegum Akureyrarbæjar í Víðilundi, Bugðusíðu og á Punktinum hefur farið fram yfir vetrarmánuðina eða frá því í september fram í maí ár hvert. Félag eldri borgara mun í tilraunaskyni í sumar standa fyrir opnu húsi og félagsstarfi í Bugðusíðu a.m.k. í júnimánuði.
Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritunina. Talið frá vinstri: Bergljót Jónasdóttir forstöðumaður tómstundamála hjá Akureyrarbæ, Dagbjört Elín Pálsdóttir formaður öldungaráðs, Sigríður Stefánsdóttir framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar, Halldór Gunnarsson stjórnarmaður í öldungaráði, Haukur Halldórsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri og Margrét Pétursdóttir, ritari félagsins.
Tekið af vef Akureyrarbæjar.