Óvissuferð

Tæplega 60 manns úr gönguhópi Félags eldri borgara á Akureyri fór í óvissuferð á vegum göngunefndar þriðjudaginn 9. ágúst 2016.

Lagt var af stað frá Akureyri upp úr kl. 10 og ekið sem leið liggur að Varmahlíð. Eftir örstutt stopp þar var ekið að B&S resturant á Blönduósi þar sem var boðið upp á súpu og brauð. Nokkrir úr hópnum fóru síðan í góða gönguferð á meðan flestir skoðuðu Heimilisiðnaðarsafnið. Þá var haldið yfir Þverárfjall og ekið út að Grettislaug á Reykjaströnd. Eftir að hafa skoðað aðstæður þar, sem eru mikið breyttar frá því Grettir Ásmundarson þreytti sitt fræga sund, var ekið að Ljósalandi rétt sunnan við Sauðárkrók. Þar var sest að glæsilegu kaffihlaðborði. Þegar við höfðum nýtt okkur það eins og getan leyfði birtist leynigestur. Það var enginn annar en Geirmundur Valtýsson. Hann spilaði nokkur lög á harmoniku og stýrði Fjöldasöng. Það var tekið vel undir sönginn og var ekki annað að sjá en allir væru mjög glaðir að fá aðeins að þenja raddböndin. Eftir að við höfðum sungið í dágóða stund var ekið rakleiðis til Akureyrar og komið þangað upp úr kl. 19. Veðrið var einstaklega gott.
Göngunefndin fékk mikið og verðskuldað hrós fyrir allt skipulag ferðarinnar, sem gekk einstaklega vel. 

Nokkrar myndir úr ferðinni eru í myndasafninu Óvissuferð. sem er undir liðnum Afþreying hér á heimasíðunni. Myndirnar eru frá Unni Þorsteinsdóttur. 

Hallgrímur Gíslason.